Jæja þá er búið að setja saman ferðsögu frá ferðinni inn á Hveravelli dagana 28-30 marz. Sá sem tók saman söguna var Rakel Erna Skarphéðinsdóttir og þökkum við henni fyrir gott starf.
Til að lesa söguna klikkið á ,,meira".
Mæting var í Pétursborg klukkan 11. Flestir mættu á skikkanlegum tíma og keyrt var á stað uppá Holtavörðuheiði.
Síðan lögðum við af stað yfir Arnarvatnsheiði, snjóbíll var með okkur í för.
Á leiðinni yfir Arnarvatnsheiði var Pétur aðallega forustusauðurinn og anaði yfir allt með hina á hælum sér.
Stoppað var í ýmsum skálum, til að pissa, fá sér að borða eða til að hoppa inn og skrifa í gestabók.
Skagamenn voru duglegir að festa sig, já eða lenda með dekk ofaní skurði og vatni.
Þurftum að fara hinar ýmsu krókaleiðir til að keyra ekki yfir vötn þar sem að nokkrir aðilar þorðu ekki að keyra yfir :D
Ferðin yfir Arnarvatnsheiði tók frekar langann tíma þar sem að bílar voru að festast, já eða einfaldlega ekki að komast upp brekkur.
Þegar við komum á Kjalveg, var sólin að setjast og þegar komið var á Hveravelli var orðið alveg dimmt.
Hafist var handa við að koma sér fyrir og grilla, sleðamennirnir höfðu komið með kol, í staðin fyrir þau sem að Skagamennirnir gleymdu.
Laugardagurinn byrjaði ágætlega snemma, vorum tilbúin að leggja í hann klukkan 10. Vorum þó ekki komin af stað fyrr en klukkan 11.
Keyrðum uppí Kerlingarfjöll, skyggnið var ekkert til að hrópa húrra fyrir fyrst, en varð svo skárra. Tókum svo einhvern tíma í að metast, hver skyldi komast fyrstur upp brekkuna? Hver skyldi nú festast?
Fórum síðan inní Kerlingarfjöll, stoppuðum aðeins þar í skálanum og þeir sem ekki höfðu komið þangað áður virtu svæðið vel fyrir sér.
Svo var farið aðra leið til baka, snjósleðaleiðina.
Þegar að aftur var komið á Hveravelli skelltu sumir sér í pottinn svona fyrir kvöldmatinn á meðan aðrir fengu að fara smá ferð á snjósleða í fyrsta skipti!
Dýrindis svínakjöt var á boðstólnum í boði Ali, og vel flestir átu yfir sig, heldu síðan áfram að troða í sig sælgæti um kvöldið og spilað á meðan.
Fólk var nú fljótt að sofna, og það hrutu allir í kór um nóttina!
Farið var á fætur á sunnudagsmorgninum um klukkan 8, morgunmatur borðaður og pakkað niður. Húsið þrifið hátt og lágt. Heimleiðin var farin suður Kjalveg, sú leið tók dágóðan tíma, og vorum með 2 ,,bilaða” bíla í för. Auk þess var nú nokkrum sinnum stoppað fyrir myndatökur, já rétt eins og hina dagana.
Rétt áður en að við komum að Gullfossi, fundum við fólk úr Borgarnesi, bíllinn þeirra hefði bilað og við gerðumst nú svo vingjarnleg að taka þau með okkur.
Pissustopp var gert hjá Gullfossi og þeir sem að ekki höfðu séð Gullfoss sjálfann fengu tækifæri til þess að berja hann augum.
Síðan var farið yfir Lyngdalsheiði og leiðir skildu við Þingvelli. Flestir fóru til Reykjavíkur en nokkrir keyrðu þó Uxahrygginn og í Lundareykjadal og þaðan í Borgarnes aftur í Pétursborg.
Takk æðislega fyrir vel heppnaða og skemmtilega ferð!
Til baka